HIN
FULLKOMNA VETRARSTEIK

Í sumar tóku Boli og Jón Örn Stefánsson í Kjötkompaní saman höndum og bjuggu til grillsteik ársins handa góðu fólki að njóta í sól og sumaryl. Þegar vetur nálgaðist hóuðum við meistarateyminu saman aftur og markmiðið var að setja saman hina fullkomnu máltíð skammdegisins þegar kvöldin lengjast og tíminn líður hægar. Niðurstaðan er rib-eye á beini, hangið við kjöraðstæður í 60 daga, skorið eftir máli svo það passi fyrir bæði mannfjölda og matarlyst í hverju matarboði fyrir sig. Eldunaraðferðin er einföld en afar áhrifarík. Líkt og hjá Bola er mikilvægasta innihaldsefnið tími. Eða tólf tímar, nánar tiltekið. Náðu þér í Bola á beini, Bola í kippu og gefðu þér góðan tíma.

Kjöt,
kryddlögur
og sósa

BOLI Á BEINI

Boli á beini, hangið í 60 daga, sérstakur kryddlögur úr Bola og pipar, sérlöguð sósa úr nautasoði, Bola og rósmarín. Bættu við kartöflum eða öðru meðlæti, kældu Bola og segðu gestunum að gjöra svo vel!

SÓSAN

Sósan er gerð úr nautasoði, góðri skvettu af Bola, rósmarín og rjóma.

KRYDDLÖGUR

Kryddlögurinn er gerður samkvæmt leyniformúlu sem inniheldur meðal annars Bola, góðan skammt af pipar og svo timjan og rósmarín.

Svona eldum við Bola á beini í 12 tíma

Klukkutímarnir segja ekki alla söguna og eru til viðmiðunar. Það sem við stefnum að er að ná 54° kjarnhita í þessari myndarlegu steik á löngum tíma. Það gefur því auga leið að kjöthitamælir er ómissandi við eldunina.

Undirbúningur

Í Kjötkompaní er bitinn er bundinn upp svo steikin haldist saman og verði jöfn og falleg. Þú skalt ekki skera á garnið fyrir eldun. Komdu steikinni fyrir í ofnskúffu eða ofnfati. Penslaðu hana ríkulega í bak og fyrir með kryddleginum, settu kjöthitamælinn í hana miðja og renndu henni svo í ofninn sem stilltur er á sirka 70°.

Eldun

Kannski þarftu núna að drífa þig í vinnuna, annars er um að gera að njóta dagsins á fjöllum, halda áfram að klára að smíða seglbátinn í skúrnum eða eiga enn eitt ævintýrið með fjölskyldunni eða vinahópnum. Aðalmálið er að vera í eldhúsinu eftir 9-12 tíma þegar hitinn fer að skríða yfir 50° í steikinni og gestirnir væntanlegir. Meðan sósan mallar á vægum hita klárarðu að elda meðlætið og gengur úr skugga um að nóg sé af Bola í kælinum.

Framreiðsla

Um leið og kjöthitamælirinn sýnir 54° tekurðu steikina úr ofninum. Þegar þú skerð hana í þunnar sneiðar við borðið blasir við dýrðlegt kjöt með dimmrauðum lit, safaríkt og með þungum og sérstökum ilmi. Á þessu stigi er nauðsynlegt að strá vel af flögusalti yfir sneiðarnar. Sósan setur svo punktinn yfir i-ið. Hún er löguð úr nautasoði, Bola, rósmarín og rjóma, passar fullkomlega við kjötið og myndar brú milli þess og svalandi glassins af kældum Bola við hliðina á diskinum.